Innlent

Enn í stofufangelsi í Texas

Bandarísk stjórnvöld hafa enn ekki svarað beiðni íslenskra stjórnvalda um að tvítugur Íslendingur, sem haldið hefur verið föngnum í Texas í sjö ár, fáist framseldur til Íslands. Hann var 13 ára dæmdur fyrir kynferðisbrot sem hann er sagður hafa framið þegar hann var 11 ára.  Aron Pálmi Ágústsson afplánaði sjö ár, af tíu ára dómi sem hann fékk fyrir kynferðisbrot þegar hann var 13 ára, í rammgerðu fangelsi. Fyrir ári var hann settur í þriggja ára stofufangelsi og er hann með staðsetningartæki bundið um hægri ökklann. Fréttir af Aroni vöktu mikla athygli síðastiliðið vor þar sem brot hans hefðu verið afgreidd sem óvitaskapur víðast hvar í hinum siðmenntaða heimi en var grimmilega refsað fyrir í Texas. Málið rataði í sali Alþingis og þar sagði Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, að kannað yrði hvort Aron fengist framseldur hingað heim af mannúðarástæðum. Hann sagðist mjög ósáttur við samskiptin við Texas ríki í þessu máli. Valgerður Hermannsdóttir, móðursystir Arons, sagði í samtali við fréttastofu í dag að beiðni hefði verið send til bandaríska heimavarnarráðuneytisins í vor. Hún hefði reglulega síðan leitað upplýsinga í utanríkisráðuneytinu og fengið að vita að bandarísk yfirvöld hefðu enn ekki svarað beiðninni. Hún segir Aron Pálma enn eiga eftir að dvelja í stofufangelsi í tvö ár og átta mánuði og að hann dreymdi enn um að fá að komast heim til Íslands. Hún segir hann þó stundum tala um að honum finnist hann vera gleymdur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×