Erlent

Varnarmálaráðherra hótar stórárás

Varnarmálaráðherra Íraks hvatti í dag sjíta-múslima í Najaf til að leggja niður vopn, ella yrðu þeir stráfelldir í stórárás síðar í dag. Harðir bardagar hafa geisað í Najaf undanfarna daga og allar tilraunir til þess að fá sjíta- klerkinn Muqtada al-Sadr til að gefast upp hafa mistekist. Hundruð manna hans hafa fallið í bardögunum. Varnarmálaráðherra Íraks sagði í morgun að nú væri komið að úrslitastundinni. Hann sagði að síðar í dag yrðu írakskir hermenn komnir að dyrum Imam Ali moskunnar. „Þá verða uppreisnarmennirnir beðnir um að leggja niður vopn,“ sagði ráðherrann. Ef þeir gera það ekki verða þeir þurrkaðir út. Sjónarvottar í Najaf segja að verið sé að flytja þangað fleiri bandaríska skriðdreka sem séu að þrengja hringinn um moskuna. Einnig hafi liðsauki írakskra hermanna sést koma þangað. Það verður hlutverk Írakanna að ráðast inn í moskuna, enda útilokað að bandarískir hermenn stígi fæti inn í helgidóminn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×