Innlent

Harmar þrákelkni Vilhjálms

Þórólfur Árnason borgarstjóri segist harma það að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sé ekki maður til að draga til baka eða neita ummælum sínum í DV í gær þar sem haft er eftir honum að það liggi beint við að ætla að borgarstjóri fái laun út kjörtímabilið, sem gætu verið 20 milljónir króna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Þórólfur sendi fjölmiðlum nú síðdegis.

Þórólfur lét bóka í borgarráði í morgun að þessi fullyrðing væri alröng og hljóti að vera sett fram gegn betri vitund Vilhjálms, og væri því rógur. Þá lét Vilhjálmur bóka að hann hefði ekki fullyrt neitt heldur aðeins nefnt að hann teldi það ekki útilokað að Þórólfur fengi laun út kjörtímabilið, en engin vitneskja lægi fyrir um það. Hann sagðist ekki ráða því hvernig fjölmiðlar matreiði fréttir sínar.

Í yfirlýsingu Þórólfs segir orðrétt:

„Ég harma það að borgarfulltrúinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er ekki maður til að neita tilvitnuðum ummælum sínum í DV í gær sem röngum eða draga þau til baka. Þar til hann gerir það standa þau, en þau voru þessi:



Þau láta hann hætta og því liggur beint við að ætla að borgarstjóri fái laun út kjörtímabilið. Miðað við að borgarstjóri sé á sömu launum og forsætisráðherra og 19 mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu hverfur Þórólfur Árnason á braut með 20 milljónir króna.

 Svo sem fram kom í bókun minni í borgarráði í morgun er fullyrðingin röng. Hún hlýtur að vera sett fram gegn betri vitund borgarfulltrúans og er því rógur að mínu mati.

Reykjavík 11. nóvember 2004

Þórólfur Árnason“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×