Innlent

Engin verkfallsbrot fyrir vestan

Kennarar á Ísafirði segjast ekki hafa orðið varir við nein verkfallsbrot þar í bæ að sögn fréttavefjarins Bæjarins besta. Aðspurðir hvort þeir telji sig njóta stuðnings almennings eða hafi orðið fyrir aðkasti segja kennarar að flestir taki máli þeirra vel. Þó hafi þeir heyrt af ýmsu sem sagt sé við vandamenn þeirra, á vefsíðum og í útvarpsþáttum, sem bendi til annars. „Við vonum að fólk sýni okkur þann stuðning að vilja að við fáum mannsæmandi laun en margir misskilja hvað stendur að baki starfi okkar en í því felst mikil heima- og undirbúningsvinna,“ segir Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, kennari og trúnaðarmaður. Verkfallsmiðstöð grunnskólakennara á Ísafirði er til húsa hjá Verkalýðsfélagi Vestfjarða og er andinn góður hjá hópnum sem kemur þar saman. „Samstaðan í hópnum er góð og hingað kemur fólk og spjallar við okkur og fær sér kaffisopa“, segir Ingibjörg.  Þá binda grunnskólakennarar á Ísafirði miklar vonir við Halldór Halldórsson, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, og hafa trú á því að hann muni styðja við bakið á þeim. „Starfsfólk verkalýðsfélagsins hefur verið yndislegt og á allt okkar þakklæti skilið fyrir að lána okkur húsnæði og fara svona vel með okkur,“ segir einn kennaranna í samtali við Bæjarins besta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×