Innlent

Ríkið leysi deiluna úr sjálfheldu

Forystumenn sveitarfélaganna og samninganefnd sveitarfélaganna komu saman til fundar á föstudag til að ræða stöðuna í kennaraverkfallinu. Trausti var lýst á samninganefndinni og henni falið að halda óbreyttri stefnu í viðræðum við kennara. Sífellt fleiri sveitarstjórnarmenn telja að deilan leysist ekki fyrr en að ríkið réttir hlut sveitarfélaganna í tekjuskiptingu þeirra á milli. Ljóst þykir að sveitarfélögin hafi ekki ráð á að samþykkja kröfur kennara og ósennilegt er að þeir dragi úr kröfunum. Lykillinn að lausn deilunnar virðist því í höndum ríkisins. Hins vegar miðar hægt í viðræðum nefndar sem fjalla átti um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hún hefur starfað í um eitt ár en án árangurs. Þetta þykir sumum sveitarstjórnarmönnum óásættanlegt og telja viðmælendur Fréttablaðsins að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem á fulltrúa í nefndinni, hafi ekki beitt nægilegri hörku í málinu. Tvö dæmi eru helst nefnd um hvernig hallað hefur á sveitarfélögin á undanförnum árum. Þegar ríkið lækkaði tekjuskatt á fyrirtæki fjölgaði einkahlutafélögum mikið en að sama skapi dró úr tekjum sveitarfélaga. Talið er að tekjutapið hafi numið rúmum milljarði króna á ári undanfarin þrjú til fjögur ár. Þá er nefnt að sveitarfélögin hafi þurft að greiða sífellt hærra hlutfall húsaleigubóta sem nemi á þriðjahundrað milljóna króna á ári. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði segir að tryggja þurfi að ríkið skili til baka fjárhæðum sem það hafi haft af sveitarfélögunum á undanförnum árum. ,,Þetta eru háar upphæðir sem ríkið hefur haft af sveitarfélögunum, jafnt með skattkerfisbreytingum sem öðrum álögum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×