Innlent

29. dagur verkfalls

Landsbankinn hefur hætt dagvistun barna starfsmanna í verkfalli kennara. Atli Atlason framkvæmdastjóri starfsmannasviðs segir að í byrjun verkfalls þegar staða foreldra hafi verið könnuð hafi verið talið að um 40 til 50 börn þyrftu gæslu. Í ljós hafi komið að þau væru einungis 20 til 30: "Foreldrar leituðu annarra leiða. Ég veit til dæmis til þess að börn starfsmanna hafi verið send í sveit." Ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við foreldrafélag bankans. Stuðningur slökkviliðs Stjórn og fulltrúaráð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna lýsir fullum stuðningi við kjarabaráttu kennara. "Mikilvægt er að samningar takist hið allra fyrsta því langvinnt verkfall getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir alla hlutaðeigandi," segir í yfirlýsingu Landssambandsins sem sendir baráttukveðjur til KÍ. Treystir Launanefndinni Stjórn Sambands íslenskra Sveitarfélaga lýsir yfir miklum áhyggjum vegna verkfalls kennara. Í yfirlýsingu frá fundi hennar á föstudag segir: "Stjórn sambandsins lýsir yfir fullu trausti á störf samninganefndar Launanefndar sveitarfélaga og telur að í sínu vandasama starfi hafi hún sýnt ríkan samningsvilja um leið og hún hefur viljað standa vörð um öflugt skólastarf sem byggir á núgildandi kjarasamningi." Verkfallsbrot Lítið hefur verið um verkfallsbrot, segir Svava Pétursdóttir formaður Verkfallsnefndar kennara. "Þetta hefur verið núningur hér og þar sem hefur verið leystur í gegnum síma." Svava segir að helst sé um að ræða notkun á skólahúsnæði og skólastofum á þeim tíma sem kennsla hefði átt að fara fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×