Innlent

Steinunn Valdís borgarstjóri

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi var í gær einróma kosin borgarstjóri á fundi borgarstjórnarflokks Reykjavíkurlistans eftir mikil átök foringja listans um hver yrði arftaki Þórólfs Árnasonar. "Ég finn fyrst og fremst til auðmýktar gagnvart þessu mikla verkefni. Embætti borgarstjóra er mun stærra en ég sem persóna" sagði Steinunn Valdís í gærkvöldi.

Stefán Jón Hafstein, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, skýrði frá vali Steinunnar Valdísar á blaðamannafundi síðdegis í gær. "Steinunn Valdís er Reykjavíkur-listakona í húð og hár. " sagði Stefán Jón þegar hann skýrði frá því að hún yrði borgarstjóri.

Steinunn Valdís er 39 ára gömul, sagnfræðingur að mennt og hefur verið borgarfulltrúi R-listans frá upphafi eða 1994. Hún er formaður skipulags- og byggingarnefndar og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.

Steinunn var kjörin eftir mikil átök innan R-listans. Samstaða allra borgarfulltrúa meirihlutans virðist hafa náðst um Dag B. Eggertsson þegar flokksforysta Framsóknar greip í taumana. Dagur óskaði Steinunni til hamingju í gær: "Niðurstaðan varð sú að breiðari samstaða náðist um Steinunni innan flokkanna sem að R-listanum standa".



Steinunn Valdís er fædd í Reykjavík þann 7. apríl 1965. Maður hennar er Ólafur Haraldsson hönnuður. Hún á eina dóttur.

Steinunn útskrifaðist með sagnfræðipróf frá Háskóla Íslands 1992 og var formaður Stúdentaráðs frá 1991 til 1992.

Hún er einn af stofnendum Grósku, samtaka jafnaðarmanna og félagshyggjufólks. Steinunn hefur verið borgarfulltrúi R-listans frá 1994. Sem slíkur hefur hún verið í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar af formaður frá 1997 til 1999. Þá hefur hún verið formaður Skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, situr í stjórn Sambands íslenskra kvenna, stjórn Skipulagssjóðs og verið fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í jafnréttisráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×