Innlent

Alþingi fjalli um samráðið

Lúðvík Bergvinsson alþingismaður telur afar brýnt að Alþingi taki olíusamráðið til umfjöllunar og athugi hvort að endurskoða þurfi samkeppnislög. Þá segir hann samkeppnisyfirvöld ekki hafa fengið það fjármagn sem til þarf. Lúðvík hefur farið fram á utandagskrárumræðu um málið á Alþingi í dag og hefst hún klukkan hálf tvö þar sem Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra verður til svara. Þingmaðurinn segist aðallega vera að velta fyrir sér þeirri alvarlegu niðurstöðu sem kemur fram í skýrslunni um að hér sé á ferðinni einhver mesta aðför að lífskjörum almmennings sem komið hefur upp á yfirborðið á síðustu áratugum. Lúðvík segir að brýnt sé að Alþingi taki málið fyrir, t.a.m. þurfi að fara yfir þær lagareglur sem gildi á þessu sviði og skoða hvort samkeppnisyfirvöld hafi fengið það fjármagn sem til þarf. Þórólfur Árnason, borgarstjóri og fyrrverandi markaðsstjóri Olíufélagsins, sagði í þættinum Ísland í dag í gær það hugsanlega hafa verið mistök hjá honum að hætta ekki hjá fyrirtækinu þegar samráðið var í gangi og að gera viðvart um háttalag yfirmanna sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×