Viðskipti erlent

Lélegt hjá Legó

Forstjóri leikfangaframleiðandans Lego hefur sagt upp störfum í kjölfar þess að ljóst varð að verulegt tap verður á rekstrinum í ár. Kjeld Kirk Christiansen hefur verið forstjóri í átján ár og er sonur Ole Kirk Christiansen, stofnanda fyrirtækisins. Talið er að tap Legó í ár nemi á bilinu tvö til fjögur hundruð milljón dönskum krónum, sem samsvarar tveimur til fjórum milljörðum íslenskra króna. Að teknu tilliti til afskrifta vegna misheppnaðra fjárfestinga er gert ráð fyrir að tapið verði allt að tuttugu milljörðum íslenskra króna. Þetta er áfall fyrir Legó en gert hafði verið ráð fyrir að reksturinn yrði í járnum í ár eftir miklar hagræðingaraðgerðir frá í fyrra. Þá tapaði fyrirtækið um fjórtán milljörðum íslenskra króna og var árið hið versta í sögu fyrirtækisins. Það sem af er ári hefur þúsund starfmönnum verið sagt upp. Sala á vörum Legó hefur minnkað verulega á síðustu árum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Japan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×