Lífið

Strax komnar í jólaskapið

Léttsveit Reykjavíkur syngur jólalög frá ýmsum heimshornum í Langholtskirkju.
Léttsveit Reykjavíkur syngur jólalög frá ýmsum heimshornum í Langholtskirkju.

Hundrað og sextíu konur ætla að syngja jólalög frá ýmsum heimshornum í Langholtskirkju í kvöld. Þar er á ferðinni kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur ásamt Ragnheiði Gröndal og valinkunnum hljóðfæraleikurum.

"Kosturinn er sá að maður hefur það að atvinnu að gleðja aðra og syngja jólin inn," segir Jóhanna Þórhallsdóttir, stjórnandi kvennakórsins Léttsveit Reykjavíkur. Hún hefur nóg að gera þessa dagana, eins og annað tónlistarfólk, því aðventan er skollin á með jólatónleikum á nánast hverju horni.

"Maður er út um allt, en þetta er líka óskaplega gefandi og skemmtilegt. Maður er strax kominn í jólaskapið." Léttsveitin heldur sína jólatónleika í Langholtskirkju í kvöld og á laugardaginn og hafa tónleikarnir yfirskriftina "Jólin alls staðar".

Með kórnum syngur Ragnheiður Gröndal einsöng, en hljóðfæraleikarar kvöldsins eru Haukur Gröndal, Eyjólfur Þorleifsson, Kristín J. Þorsteinsdóttir, Tómas R. Einarsson og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, undirleikari kórsins.

"Við ætlum að flytja jólalög úr ýmsum áttum, bæði spænsk og afrísk og íslensk. Ragnheiður syngur meðal annars Ave Maríu eftir Kaldalóns og svo syngur hún sín eigin lög."

Kórinn hefur haldið upp á tíu ára afmæli sitt á þessu ári með ýmsu móti. Meðal annars gerði Silja Hauksdóttir kvikmynd um kórinn, sem frumsýnd var í haust og heitir einfaldlega Kórinn. Einnig er kórinn að gefa út disk, sem væntanlegur er á markað í dag.

"Það er ekki jólaplata," segir Jóhanna, "heldur eru þetta tónleikaupptökur frá síðastliðinum tíu árum. Upptökur með ýmsum listamönnum eins og til dæmis Rússibönum, Snorra Wium, Wilmu Young og náttúrlega Tomma og Öllu sem fylgja okkur alltaf."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.