Sport

Guðmundur ráðinn hjá Fram

Stjórn handknattleiksdeildar Fram tilkynnti í gær að hún hefði ákveðið að ráða Guðmund Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara, sem þjálfara karlaliðs félagsins næstu þrjú árin. Guðmundur tekur við starfinu af Heimi Ríkharðssyni, sem var rekinn eftir 23 ára samfleytt starf hjá félaginu en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Guðmundur var jákvæður á blaðamannafundinum í gær en sex mánuðir eru síðan hann hætti sem landsliðsþjálfari. "Ég lokaði engum dyrum þegar ég hætti með landsliðið enda á maður aldrei að vera með stórar yfirlýsingar því hlutirnir eru oft fljótir að breytast. Ég hef verið að fá áhugann á handbolta aftur síðustu vikur. Ég tel mig hafa haft gott af hvíldinni enda var ég búinn að þjálfa samfleytt í 16 ár þegar ég hætti með landsliðið," sagði Guðmundur en hann er ekki á ókunnum slóðum enda þjálfaði hann Framliðið á árunum 1995-1999. Þegar Guðmundur lét af starfi landsliðsþjálfara sagði hann í viðtali við Fréttablaðið: "Ég er að byrja í nýju starfi sem ég get ekki sinnt af eðlilegri getu ef ég held áfram með landsliðið". Það lá því beinast við að spyrja hvort hann hefði meiri tíma sex mánuðum síðar. "Það er ýmislegt búið að breytast hjá mér og ég hef metið stöðuna á ný. Ég hefði ekki tekið starfið að mér ef ég gæti ekki sinnt því af 100% krafti," sagði Guðmundur, sem hefur verið í hlutastarfi hjá PARX-viðskiptaráðgjöf ásamt því sem hann hefur starfað á auglýsingadeild RÚV.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×