Sport

Stam vill ekki vanmeta PSV

Hollensi varnarmaðurinn Jaap Stam hjá AC Milan segist þekkja vel til fyrrum félaga sinna í PSV Eindhoven og varar liðsmenn Mílanóliðsins við vanmati á löndum sínum í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í Mílanó í kvöld. "PSV er með hörku lið. Þeir hafa ekki tapað í Meistaradeildinni síðan snemma í desember og sá árangur talar sínu máli í svona sterkri deild," sagði varnarmaðurinn sterki, sem stefnir á að reyna að vera með Milan í kvöld, þrátt fyrir að eiga við meiðsli að stríða. Milan verður án varnarjaxlsins Allessandro Nesta, sem er í leikbanni og því vill Staam gera allt sem í hans valdi stendur til að vera með. "Ég þekki lið PSV mjög vel," hélt Stam áfram, "þeir eru tæknilega mjög góðir, berjast vel og þá langar mikið að ná að slá okkur út. Mig langar mikið að vera með í leiknum í kvöld, ekki bara vegna fjarveru Nesta, heldur af því mig langar að vera með gegn PSV," sagði hann. Leikur liðanna er í kvöld og hefst bein útsending frá leiknum á Sýn klukkan 18:30.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×