Sport

Eiður líklega í byrjunarliðinu

Gríðarleg spenna er fyrir undanúrslitaleik Chelsea og Liverpool í Meistaradeild Evrópu á Stamford Bridge í Lundúnum í kvöld. Leikurinn hefst klykkan 18.45 og verður í beinni útsendingu á Sýn. Flest bendir til þess að Eiður Smári Guðjohnsen verði í byrjunarliði Chelsea líkt og undanfarnar vikur og spili fremstur á miðjunni. Jose Mourinho, stjóri Chelsea, sagði á blaðamannafundi í gær að það væri lykilatriði að fara ekki á taugum þótt Chelsea vinni ekki heimaleikinn á Stamford Bridge. Það sé alltaf hægt að vinna seinni leikinn. Mourinho segist bera mikla virðingu fyrir Rafael Benitez, stjóra Liverpool, sem hafi komið liðinu alla leið í undanúrslitin með því að spila taktískt og það henti Chelsea í sjálfu sér vel að mæta þannig liði. Benitez sagði að undanúrslitaleikirnir í Meistaradeildinni yrðu án nokkurs vafa töluvert öðruvísi en deildarleikir liðanna. Chelsea hefði stóran leikmannahóp til þess að takast á við erfiða deildarkeppni í Englandi en í tveimur úrslitaleikjum í Meistaradeildinni yrði taktíkin í fyrirrúmi og allt gæti gerst. Chelsea mætir með sína sterkustu sveit fyrir utan Wayne Bridge, Paule Ferreira og Scott Parker sem allir eru fótbrotnir. Damien Duff er tognaður aftan í læri og fer í læknisskoðun síðdegis. Steven Gerrard, Xabi Alonso, Milan Baros og Luis Garcia eru klárir í slaginn hjá Liverpool en Harry Kewell er enn frá vegna meiðsla. Að loknum leik Chelsea og Liverpool á Sýn mæta knattspyrnusérfræðingar í sjónvarpssal Sýnar og kryfja leikinn til mergjar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×