Erlent

Undrandi á Deep Throat

Blaðamenn Washington Post, sem áttu einna stærstan þátt í að fletta ofan af Watergate-hneykslinu, segjast enn þann dag í dag ekki vita hvers vegna Mark Felt, starfsmaður bandarísku alríkislögreglunnar, hafi ákveðið að veita þeim upplýsingar. Síðustu þrjá áratugi hefur Felt verið nefndur „Deep Throat“, enda mátti telja þá á fingrum annarrar handar sem vissu á honum deili. Það breyttist allt í gær þegar Felt gekkst við því að vera persónan Deep Throat sem miðlaði upplýsingum um spillingarmálið sem tengdi anga sína til Hvíta hússins og leiddi til afsagnar Richards Nixons Bandaríkjaforseta. Blaðamennirnir, þeir Bob Woodward og Carl Bernstein, segja Felt hafa verið tregan til að veita þær; nánast hafi þurft að draga þær upp úr honum með töngum. Þeir vísa á bug þeirri gagnrýni sem fyrrum stuðningsmenn Nixons hafa sett fram um að Felt hefði frekar átt að segja af sér ef honum ofbauð framferði stjórnvalda. Þá gegndi Felt embætti aðstoðarforstjóra bandarísku alríkislögreglunnar. Blaðamennirnir eru þó enn í vafa um það hvað hafi gert útslagið svo úr varð að Felt leysti frá skjóðunni. Bernstein segir augljóst að hann hafi viljað binda enda á þá glæpamennsku og stjórnarskrárbrot sem átti sér stað. „Og miðað við þær fréttir sem við skrifuðum - þetta eru bara vangaveltur - en þetta hefur kannski verið eina örugga leiðin. Allar hinar stofnanirnar voru spilltar á þessum tíma,“ segir Bernstein. Sjálfur hefur Felt sagt að honum hafi fundist fram hjá sér gengið þegar Nixon skipaði Patrick Gray forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar en Gray þessi var einn þeirra fjölmörgu sem flæktust inn í Watergate-hneykslið. Woodward telur að sú ráðning hafi verið vendipunkturinn í ákvarðanatöku Felts. Hann hafi í kjölfarið orðið einn af fjölmörgum heimildarmönnum blaðamannanna þegar þeir byrjuðu að skrifa um Watergate-málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×