Sport

Chelsea fær ekki Essien

Jean-Michel Aulas, forseti franska stórveldisins Lyon, segir að helsta stjarna liðsins, miðjumaðurinn Michael Essien, verði ekki seldur til Chelsea þrátt fyrir að Roman Abramovich sé reiðubúinn að greiða fúlgur fjár fyrir landsliðsmanninn frá Ghana. Lyon hafnaði nýlega tilboði Chelsea upp á 16,75 milljónir punda og segir Aulas að því hefði einnig verið hafnað þótt fjárhæðin hefði farið yfir 20 milljónir punda. "Essien og einnig Mahamadou Diarra og Juninho verða áfram með Lyon á næsta ári. Ég hef alltaf sagt það og það mun ekki breytast. Það hefur verið margs konar óþægilegur orðrómur fyrir mig að undanförnu og nú vill ég binda endi á hann," sagði fokvondur Aulas við franska fjölmiðla í gær. Aulas segir að hann og Gerard Houllier, nýráðinn knattspyrnustjóri félagsins, séu sammála um að byggja eigi liðið í kringum Essien. "Ég staðfesti það hér með að okkar bestu leikmenn eru ekki á förum. Að halda þeim öllum gerir lið okkar sterkara en það var í fyrra og það er ætlun okkar," sagði Aulas en hann og Houllier gengu frá kaupum á norska landsliðsmanninum John Carew í gær fyrir fimm milljónir punda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×