Innlent

Hefur vinnu á mánudag

Björn Bjarnason setti í dag Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara til að fara með þrjátíu og tvo ákæruliði Baugsmálsins. Sigurður Tómas hefur ekki fengið gögn um Baugsmálið í hendurnar en hann ætlar að hefja vinnu við það á mánudaginn. Hann vill ekki að málið dragist á langinn og stefnir að því að ákvörðun um framhaldið liggi fyrir ekki síðar en í febrúarlok. Bogi Nilsson lýsti sig vanhæfan þar sem bróðir hans og synir starfa hjá endurskoðunarskrifstofu KPMG sem hefur séð um endurskoðun fyrir Baug. Sigurður Tómas Magnússon sem lauk lagaprófi frá Hákóla Íslands vorið 1985 er fyrrverandi héraðsdómari og formaður dómstólaráðs. Frá fyrsta nóvember í fyrra hefur hann starfað sem sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugsmálinu, sagði í samtali við fréttastofu, að hann hefði ekkert út á setningu Sigurðar Tómasar að setja og sagðist þekkja hann af góðu einu. Aftur á móti sagðist hann undrast að Björn Bjarnason hefði talið sig hæfan til þess að setja nýjan ríkissakóknara í málinu. Lögmenn sem fréttastofan ræddi við virtust sammála Gesti hvað Sigurð Tómas varðar og sögðu hann meðal annars vandaðan og varkáran mann. Margir hafa tjáð sig um Baugsmálið eða komið að því á einn eða annan hátt, því komu ekki margir aðrir en Sigurður Tómas til greina til að taka við málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×