Innlent

Viðbrögð Breta ekki eins sterk og búist hafði verið við

Sænsk stjórnvöld eru ævareið hvalveiðum Íslendinga og skora á þá að þeim verði hætt hið fyrsta. Að mati sendiherra Íslands í Bretlandi eru viðbrögðin þar í landi við aflabrögðum helgarinnar ekki eins sterk og búist hafði verið við.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, fer á fund Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands, á fimmtudaginn en þarlend stjórnvöld eru lítt hrifinn af hvalveiðum Íslendinga. Að öðru leyti virðast veiðarnar fá fremur litla athygli í breskum fjölmiðlum.

Blöð á borð við Independent og Guardian, sem bæði fjalla mikið um umhverfsimál, segja stuttlega frá drápinu á langreyðinni aftarlega í blaðinu og BBC sýndi frá því þegar hvalurinn var dreginn á land í gær.

Að sögn Sverris höfðu um 180 tölvuskeyti borist sendiráðinu um helgina þar sem hvalveiðunum var mótmælt, minna en búist hafði verið við.

Í Svíþjóð fer umræðan og andstaðan við veiðarnar aftur á móti vaxandi enda fjölluðu sænskir fjölmiðlar talsvert um málið um helgina. Í viðtali við Dagens Nyheter gagnrýnir Andreas Carlgren, umhverfisráðherra, Íslendinga harðlega fyrir hvalveiðar og bendir á að það hafi einmitt verið fyrir mistök sænsku sendinefndarinnar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins árið 2002 að Svíar mæltu með inngöngu Íslendinga í ráðið.

Við inngönguna skuldbundu Íslendingar sig til að hefja ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en árið 2006. Svíar reyndu á sínum tíma að ógilda atkvæðagreiðsluna þegar þeir áttuðu sig á hvað fyrirvarinn þýddi, en án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×