Erlent

Búist við tillögum um aukið samstarf við Sýrlendinga og Írana

MYND/AP

Nefnd á vegum Bandaríkjaþings sem gera á tillögur um breytingar á stefnunni í Írak skilar niðurstöðum sínum í dag. Aukið samstarf við Sýrlendinga og Írana og heimkvaðning herliðsins í áföngum er á meðal þess sem búist er við að nefndin leggi til.

Nefndin hefur verið að störfum síðan í apríl undir stjórn James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og á þeim tíma hefur hún rætt við um 170 manns, þar á meðal George Bush Bandaríkjaforseta og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands.

Óhætt er að segja að niðurstaðna nefndarinnar hafi verið beðið með talsverðri eftirvæntingu enda fer ástandið í Írak versnandi með hverjum mánuðinum og úrbóta því þörf.

Miðað við það sem kvisast hefur út af störfum nefndarinnar er reiknað með að hún leggi megin áherslu á tvennt. Annars vegar að Sýrlendingar og Íranar verði fengnir í ríkari mæli til að aðstoða nágranna sína í Írak við að binda enda á ófriðinn, hins vegar að um helmingur herliðsins verði kallaður í áföngum heim frá Írak á næstu átján mánuðum. Í tengslum við það verði verksvið þeirra sveita sem eru eftir endurskilgreint þannig að þær sjái frekar um að aðstoða íraskar hersveitir en að taka sjálfar þátt í bardögum við uppreisnarmenn.

Um 140.000 bandarískir hermenn eru þar í dag og því verður um verulega fækkun að ræða. Bush forseti hefur sagst ætla að grandskoða tillögur nefndarinnar en ítrekað um leið að hann telji sig ekki bundinn af þeim.

Átta manns hafa látið lífið í árásum hermdarverkamanna í Írak það sem af er degi, meðal annars dóu tveir í sjálfsmorðsárás í strætisvagni í Bagdad í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×