Brasilíumaðurinn Ronaldinho hefur verið á ferð og flugi undanfarna daga og náði aðeins einni æfingu fyrir leik Barcelona gegn Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn hefst kl. 21 og er í beinni útsendingu á Sýn.
Ronaldinho var staddur í Japan með Börsungum á laugardag þegar liðið tapaði fyrir Internacional í úrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða. Á mánudag var hann viðstaddur hóf sem FIFA hélt fyrir val sitt á knattspyrnumanni ársins. Hann fékk svo að hvíla sig í gær.
Giovanni dos Santos, framherjinn ungi, gæti komið við sögu í kvöld þar sem hann er kominn með spænskt vegabréf.- esá