Innlent

Tilraunir til innflutnings á fíkniefnum stöðvaðar

Lögreglan hefur komið upp um sjö tilraunir til innflutnings á fíkniefnum undanfarnar sex vikur. Samtals hefur verið lagt hald á rúmlega fjórtán kíló af hvítu efnunum, kókaíni og amfetamíni, á tímabilinu.

110 fíkniefnamál voru bókuð hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík síðustu sex vikurnar, eða frá 1. júní. Af þeim vörðuðu sjö mál innflutning á fíkniefnum.

Langstærsta málið var í síðustu viku þegar tveir Litháar reyndu að smygla rúmlega 12 kílóum af amfetamíni til landsins í bíl með Norrænu. Á Keflavíkurflugvelli var ungur maður var tekinn með 100 gr. af kókaíni og í síðustu viku reyndi par að smygla kílói af kókaíni um völlinn. Fjögur innflutningsmálanna voru minniháttar, þar sem t.d. var reynt að senda fíkniefni í pósti.

Á tímabilinu hefur lögreglan einnig lagt hald á tæplega 800 gr. af amfetamíni, 200 gr. af kókaíni og 100 til 200 grömm af hassi.

Lagt hefur verið hald á meira af efnum nú en í fyrra en upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Reykjavík telur það vera auknu eftirliti að þakka, frekar en að innflutningur sé að færast í vöxt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×