Leik Watford og Wigan í ensku úrvalsdeildinni í dag var flautaður af þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik vegna úrhellisrigningar sem varð þess valdandi að ekki var hægt að spila fótbolta á vellinum í Watford.
Eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt sáu leikmenn vart handa sinna skil vegna rigningarinnar og sá dómari leiksins ekki annan kost í stöðunni en að flauta leikinn af.
Staðan var þá 1-1, en Emile Heskey hafði komið Wigan yfir á 23. mínútu áður en Tamas Priskin jafnaði metin, mínútu fyrir hálfleik.