Sport

Afleitt kvöld fyrir stórliðin

Manchester United tapaði fyrir Blackburn í kvöld
Manchester United tapaði fyrir Blackburn í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Stóru liðin í ensku úrvalsdeildinni áttu öll erfitt uppdráttar í leikjum sínum í kvöld. Á meðan Chelsea gerði jafntefli við Aston Villa, náði Liverpool aðeins í annað stigið gegn Birmingham á heimavelli þrátt fyrir að vera manni fleiri, Arsenal tapaði fyrir West Ham á heimavelli og Manchester United tapaði fyrir Blackburn í ævintýralegum leik á Ewoood Park.

Liverpool var með pálmann í höndunum gegn Birmingham á heimavelli sínum eftir að Steven Gerrard kom liðinu yfir, en slysalegt sjálfsmark Xabi Alonso jafnaði metin fyrir gestina undir lokin. Robbie Fowler kom inná sem varamaður í liði Liverpool og náði að skora mark með hjólhestaspyrnu á lokasekúndu uppbótartíma, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Arsenal tapaði 3-2 á heimavelli fyrir grönnum sínum í West Ham. Reo Coker, Zamora og Etherington skoruðu mörk West Ham, en þeir Henry og Pires skoruðu fyrir Arsenal.

Blackburn lagði Manchester United 4-3 í ótrúlegum leik á heimavelli sínum. David Bentley gerði þrennu fyrir Blackburn í leiknum, en Van Nistelrooy (2) og Saha gerðu mörk United, sem missti Rio Ferdinand útaf með rautt spjald á 88. mínútu, eftir að hann hafði fengið tvö gul spjöld á fimm mínútum. Þetta er í fyrsta sinn í 75 ár sem Blackburn vinnur báða deildarleiki sína gegn Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×