Sport

Chris Paul nýliði ársins

Chris Paul er einhver allra besti leikstjórnandi sem komið hefur inn í deildina í mörg ár
Chris Paul er einhver allra besti leikstjórnandi sem komið hefur inn í deildina í mörg ár NordicPhotos/GettyImages

Bandaríska dagblaðið Times-Picayune hefur eftir heimildarmanni sínum í NBA deildinni að leikstjórnandinn Chris Paul hjá New Orleans Hornets verði útnefndur nýliði ársins í deildinni á miðvikudaginn. Þessar fréttir hafa enn ekki verið staðfestar, en reynist þær réttar, koma þær sannarlega ekki á óvart. Paul bar höfuð og herðar yfir aðra nýliða í deildinni í vetur og líklega yrði það að teljast hneyksli ef annar maður hlyti nafnbótina.

Paul var lykilmaður spútnikliðs New Orleans/Oklahoma City Hornets í vetur, en liðið náði undraverðum árangri og var ekki langt frá því að komast í úrslitakeppnina. Chris Paul var efstur allra nýliða í stigum, stoðsendingum, stolnum boltum, mínútum og tvöföldum- og þreföldum tvennum í vetur.

Hann skoraði að meðaltali 16,1 stig, gaf 7,8 stoðsendingar og stal 2,2 boltum. Þá náði hann 21 tvennu og 2 þrennum og spilaði 36,4 mínútur að meðaltali í leik. Paul var ekki valinn fyrr en númer fjögur í nýliðavalinu á síðasta ári, þrátt fyrir að vera almennt álitinn sá leikmaður sem mest gæti látið að sér kveða strax og hann kom inn í deildina.

Segja má að spilamennska Paul hafi í raun farið fram úr björtustu vonum og er hann þegar orðinn einn allra besti leikstjórnandi deildarinnar. Hann er óeigingjarn leikmaður og hefur verið með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir velgengnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×