Fótbolti

Hundfúll yfir að vera fallinn úr Evrópukeppninni

Pellegrini var skiljanlega ósáttur við að falla úr Evrópukeppninni
Pellegrini var skiljanlega ósáttur við að falla úr Evrópukeppninni NordicPhotos/GettyImages

Manuel Pellegrini, þjálfari spænska liðsins Villarreal, var mjög óhress með að liðið félli óvænt úr Intertoto keppninni gegn slóvenska liðinu NK Maribor í gær. Pellegrini gagnrýndi leikmenn liðsins harðlega eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli við Slóvenana á útivelli og féll því úr keppni eftir að hafa tapað heimaleiknum 2-1.

Villarreal var Spútnikliðið í meistaradeildinni í fyrra og fór alla leið í undanúrslitin, en Evrópudraumurinn í ár varð ansi stuttur í kjölfar leikjanna við slóvenska liðið. Þremur leikmönnum Villarreal var vikið af leikvelli undir lok síðari leiksins í gær.

"Ég er vægast sagt reiður út í mína menn, því það gengur ekki að láta reka sig út af trekk í trekk í svona Evrópuleikjum," sagði Pellegrini, en Villarreal var einnig að spila á færri mönnum í fyrri leiknum. "Annars erum við fallnir úr keppni í Evrópu af því við mætum andstæðingum sem voru hungraðari og einbeittari en við - það er svo einfalt," sagði Pellegrini hundfúll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×