Fótbolti

Forráðamenn Espanyol kæra Barcelona

Carles Puyol, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins
Carles Puyol, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Espanyol sendu spænska knattspyrnusambandinu kærubréf skömmu fyrir fyrri leik liðsins gegn Barcelona í meistarakeppninni í gær, því þeir segja granna sína hafa brotið reglur FIFA þegar þeir tefldu þeim Xavi og Carles Puyol fram í leiknum.

Espanyol menn telja Barcelona hafa brotið reglur FIFA þegar þeir tefldu spænsku landsliðsmönnunum fram í leiknum í gær, því þeir tveir voru sem kunnugt er ekki með spænska landsliðinu þegar það mætti Íslendingum á Laugardalsvelli á dögunum. Forráðamenn Espanyol segja reglur FIFA taka það skýrt fram að leikmenn á meiðslalista hjá landsliðinu megi ekki spila með félagsliðum sínum fyrr en í fyrsta lagi fimm dögum eftir viðkomandi landsleik. Þeir hafa því farið fram á að verða dæmdur sigur í fyrri leiknum í meistarakeppninni í gærkvöld, þar sem Barcelona vann 1-0 á útivelli.

Eiður Smári Guðjohnsen fellur væntanlega ekki undir sama hatt og félagar hans Xavi og Puyol, því hann kom ekki við sögu í leiknum í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×