Fótbolti

Norðanliðin keppast um Woodgate

Jonathan Woodgate gæti verið á leið aftur til Englands
Jonathan Woodgate gæti verið á leið aftur til Englands NordicPhotos/GettyImages

Ensku úrvalsdeildarfélögin Newcastle og Middlesbrough eru nú sögð í kapphlaupi um að reyna að fá fyrrum landsliðsmanninn Jonathan Woodgate að láni frá spænska félaginu Real Madrid. Woodgate hefur átt mjög erfitt uppdráttar vegna meiðsla undanfarin ár, en í gær átti hann fund með forráðamönnum Boro. Síðan er talið að Newcastle hafi blandað sér inn í málið með því að bera víurnar í hann.

Gareth Southgate, stjóri Middlesbrough, segist spenntur fyrir að fá þennan sterka varnarmann í sínar raðir, en varnarleikur Boro hefur ekki verið upp á marga fiska það sem af er í ensku úrvalsdeildinni. "Við erum búnir að eiga góða fundi með Woodgate og ég vona bara að hann hafi ekki séð leikinn okkar gegn Portsmouth í sjónvarpinu," sagði Southgate og glotti, en Boro tapaði þeim leik 4-0. Woodgate gekk í raðir Real Madrid árið 2004 fyrir rúmar 13 milljónir punda en hefur aðeins spilað 14 leiki allan þann tíma vegna meiðsla.

Þessi lið eru einnig sögð vera á höttunum eftir þýska landsliðsmanninum Robert Huth hjá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×