Fótbolti

Eiður Smári stal senunni í sigri Barcelona

Eiður Smári minnti rækilega á sig á 44. afmælisdegi þjálfara síns í kvöld
Eiður Smári minnti rækilega á sig á 44. afmælisdegi þjálfara síns í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen gaf þjálfara sínum Frank Rijkaard góðan sigur í afmælisgjöf í dag þegar hann var í fyrsta skipti í byrjunarliði Barcelona í spænsku deildinni. Eiður skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar Barcelona vann sigur á þrjóskum Böskunum í Athletic Bilbao 3-1 á útivelli eftir að vera manni fleiri í 70 mínútur.

Heimamenn komust yfir snemma leiks með glæsilegu marki, en á 20. mínútu fiskaði Eiður Smári varnarmann Bilbao útaf eftir að hann var við það að sleppa einn inn fyrir vörn heimamanna. Dómur þessi var mjög strangur og létu stuðningsmenn Bilbao dómarann heyra skoðun sína á því það sem eftir lifði leiks. Eiður Smári lagði upp jöfnunarmark Börsunga þegar komið var fram í uppbótartíma í fyrri hálfleik en það var fyrirliðinn Carles Puyol sem jafnaði metin.

Í síðari hálfleiknum var það svo Eiður Smári sem kom Barcelona loksins yfir gegn 10 leikmönnum Bilbao með góðu skoti og kom meisturunum þar með í góða stöðu. Hann fékk svo að víkja fyrir argentínska landsliðsmanninum Javier Saviola þegar skammt var til leiksloka og sá skoraði þriðja og síðasta mark Barca undir lokin með sínu fyrsta marki í óratíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×