Fótbolti

Getafe hefur tak á Real Madrid

Vonbrigðin leyna sér ekki í svipnum á Roberto Carlos hjá Real Madrid eftir leikinn í gærkvöldi
Vonbrigðin leyna sér ekki í svipnum á Roberto Carlos hjá Real Madrid eftir leikinn í gærkvöldi NordicPhotos/GettyImages

Stórliðið Real Madrid reið ekki feitum hesti frá viðureign sinni við granna sína í smáliðinu Getafe í spænska boltanum í gær og tapaði 1-0 á útivelli. Eins og til að fullkomna ömurlegt kvöld fyrir Real, lék framherjinn Ronaldo reka sig af velli fyrir kjaftbrúk í lok leiksins og verður því í banni í næsta leik þegar Real mætir Barcelona.

Það var miðvörðurinn Alexis sem færði lærisveinum Bernd Schuster sigurinn með marki eftir 15 mínútna leik í síðari hálfleik og segja spænskir miðlar að hér hafi verið um lélegustu frammistöðu Real á leiktíðinni að ræða. Liðið var klaufalegt í vörninni, andlaust á miðjunni og bitlaust í sóknarleiknum.

Smálið Getafe hefur því gott tak á risunum grönnum sínum, því síðan liðið vann sér í fyrsta sinn sæti í efstu deild fyrir þremur árum, hefur það unnið tvo og gert eitt jafntefli við Real á heimavelli sínum.

Real er í fjórða sæti deildarinnar eftir tapið og gæti færst neðar í töflunni þegar liðin í næsta nágrenni við það í deildinni spila leikina sem þau eiga til góða. Getafe er í áttunda sætinu, aðeins stigi á eftir grönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×