Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í hálfs árs fangelsi fyrir sölu og vörslu fíkniefna og fyrir að hafa ekið bíl ítrekað án ökuréttinda.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa á Akureyri selt ýmiss konar fíkniefni frá upphafi árs 2005 fram í desemberbyrjun sama ár þegar hann var handtekinn, en söluvirði efnanna nam nærri hálfri milljón króna. Við handtöku fannst nokkuð af fíkniefnum í fórum mannsins.
Sakaferill mannsins nær allt aftur til ársins 1994 og á þessu ári hefur hann þegar hlotið þrjá dóma fyrir umferðarlagabrot. Auk fangelsisdómsins og upptöku fíkniefna var maðurinn dæmdur til að greiða rúmlega 300 þúsund krónur í sakarkostnað.