Fótbolti

Eiður kippir sér ekki upp við ummæli Mourinho

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen lét sér fátt um finnast í dag þegar hann var spurður út í ummæli fyrrum stjóra síns í sinn garð, en Jose Mourinho kallaði hann leikara fyrir leik Barcelona og Chelsea í síðasta mánuði.

"Ég er ekkert að velta mér upp úr því hvað Mourinho segir í blöðunum, svona er hann bara stundum í fjölmiðlum," sagði Eiður í samtali við breska sjónvarpið í dag.

Mourinho fann að því að Eiður hefði fengið ódýra vítaspyrnu í leik í spænsku deildinni nokkrum dögum fyrir leik Chelsea og Barcelona. "Eiður spilar alla sína ævi í enska boltanum og þremur mánuðum eftir að hann kemur til spánar er hann farinn að fiska svona vítaspyrnur - menn gera ekki svona á Englandi," sagði Mourinho. Hann var síðar spurður hvort hann héldi að leikur Barca og Chelsea yrði góð sýning. "Spyrjið Eið" sagði hann þá.

Eiður var þó ekkert að láta ummæli stjóra síns fara í taugarnar á sér. "Ég spilaði undir stjórn hans í tvö ár og við unnum vel saman. Hann er allt annar við leikmenn í búningsklefanum en fyrir augum almennings. Kannski var hann að reyna að taka pressuna af leikmönnum sínum, en ég er ekkert viss um að svona lagað geri það - það er alltaf pressa fyrir svona leiki, það er bara spurning hvernig menn standast hana," sagði fyrirliði íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×