Fótbolti

Áhorfendur ruddust inn á völlinn

Áhorfendur létu öllum illum látum er þeir réðust inn á völlinn.
Áhorfendur létu öllum illum látum er þeir réðust inn á völlinn. Getty Images

Leikur ADO Den Haag og Vitesse Arnhem í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag var flautaður af um miðjan síðari hálfleik eftir að hundruðir stuðningsmanna ADO ruddust inn á völlinn og létu öllum illum látum.

Staðan var 3-0 fyrir gestunum þegar atvikið varð og má telja líklegt að þolinmæðin hjá stuðningsmönnum heimaliðsins hafi einfaldlega sprungið, enda lið þeirra neðst í deildinni með aðeins fimm stig eftir 12 leiki. Með uppákomunni voru stuðningsmennirnir að mótmæla hörmulegri spilamennsku liðsins

Áhorfendurnir brutu sér leið í gegnum varnargirðingar vallarins og réðu öryggisverðir ekki við neitt. Enginn meiddist í átökunum og náðu leikmenn að forða sér inn í búningsklefa í tæka tíð. ADO má búast við harðri refsingu fyrir uppákomuna.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn fyrir AZ Alkmaar sem tapaði fyrir Feyonoord í gærkvöldi og Jóhannes Karl Guðjónsson lék síðustu 20 mínúturnar. Arnar Þór Viðarsson kom sömuleiðis inn á hjá Twente sem gerði 1-1 jafntefli við Ajax.

PSV situr í toppsæti deildarinnar með 34 stig, Ajax er með 31 stig í öðru sæti en AZ er í þriðja sæti með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×