Fótbolti

Beckham orðaður við West Ham

David Beckham er mikið í umræðunni þessa dagana
David Beckham er mikið í umræðunni þessa dagana NordicPhotos/GettyImages

Þrálátur orðrómur er enn á kreiki um gjörvalla Evrópu þess efnis að David Beckham muni fara frá Real Madrid í janúar því hann sé ekki inni í framtíðaráformum Fabio Capello þjálfara.

Beckham hefur verið orðaður sterklega við lið LA Galaxy í bandarísku atvinnumannadeildinni og þar á bæ hefur stjórnin þegar samþykkt að veita undanþágu varðandi launagreiðslur ef kappinn hefði hug á að flytja til Hollywood.

Bresku blöðin láta ekki sitt eftir liggja og hefur Beckham verið orðaður við lið á borð við Blackburn og Glasgow Celtic. Nýjasti orðrómurinn segir svo að Eggert Magnússon og félagar hjá West Ham séu að skoða kappann.

"Ég hef nú ekki heyrt það að við séum að spá í Beckham, en það er vissulega gaman að félag eins og West Ham sé nefnt í sömu andrá og þessi góði knattspyrnumaður," var haft eftir Eggerti í einu blaðanna. "Það er hinsvegar knattspyrnustjórinn sem stýrir uppbyggingu liðsins og við ætlum ekki að fylla lið okkar af ofurstjörnum," sagði Eggert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×