Fótbolti

Áfrýjun hefst 22. júlí

Juventus, Lazio, Fiorentina og AC Milan munu hefja áfrýjunarmál sitt fyrir dómstóli frá og með laugardeginum 22. júlí að sögn breska sjónvarpsins. Milan mun áfrýja ákvörðun dóms um stigafrádrátt sinn í A-deild á næsta ári, en hin liðin þrjú áfrýja stigafrádrætti og því að vera felld niður um deild. Ólíklegt er talið að Milan hafi nægan tíma til að áfrýja banninu á þáttöku í meistaradeildinni og verði því að sætta sig við að taka ekki þátt á næstu leiktíð.

Þá eru lið Palermo, Roma og Chievo í viðbragðsstöðu með að sækja um að fá að koma í stað Juventus, AC Milan og Lazio í meistaradeildinni á næstu leiktíð. Verjendur félaganna fjögurra voru mjög ósáttir að fá ekki að notast við myndbandsupptökur og vitni þegar málið var rekið fyrir dómi og munu við áfrýjun reyna að fá þessu hnekkt.

Talið er að ákveðin áhætta sé fólgin í áfrýjun liðanna á dómnum sem þau hafa þegar hlotið, því saksóknarinn sem skipaður var í málinu vildi að mikið harðari refsingum yrði beitt í málinu og vildi til að mynda að Juventus yrði dæmt niður í C-deild - og að AC Milan yrði dæmt til að leika í B-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×