Endurskoðandi sem kom að stofnun einkahlutafélagsins Fjárfars gagnrýndi Tryggva Jónsson, einn ákærðu í málinu, harðlega þegar hann bar vitni í Baugsmálinu í gær. Hann sagði að settur hefði verið á svið leikþáttur sem hann hefði ekki ímyndað sér að hann væri að taka þátt í.
Margt virðist á huldu með Fjárfar, en nokkuð rofaði til þegar fyrrum stjórnarformaður, endurskoðandi og hluthafar voru leiddir fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem vitni í Baugsmálinu í gær. Fjárfar kemur við sögu í þremur ákæruliðum þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson er meðal annars ákærður fyrir ólögmætar lánveitingar frá Baugi. Sækjandi í málinu heldur því fram að Jón Ásgeir hafi í raun stjórnað Fjárfari.
„Það er eins og þetta hafi allt verið sviðsett," sagði Aðalsteinn Hákonarson, fyrrverandi endurskoðandi hjá KPMG. Hann kom að stofnun Fjárfars árið 1998 að beiðni Tryggva Jónssonar, sem var aðstoðarforstjóri Baugs.
Aðalsteinn sagði að hann hefði treyst Tryggva, sem var á þeim tíma stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, til að sjá til þess að hlutafé í Fjárfari yrði greitt. Það hefði ekki gengið eftir.
Spurður um eigendur fyrirtækisins, sem hann hélt að væru hjónin Eiríkur Sigurðsson og Helga Gísladóttir, sagðist Aðalsteinn eingöngu hafa verið í sambandi við Tryggva. „Hann sagði mér að ekki þýddi að ræða við formlega stofnendur, þeir væru bara leppar í þessu," sagði Aðalsteinn.
Helgi Jóhannesson lögmaður var stjórnarformaður Fjárfars frá árslokum 1999 til byrjunar árs 2002. Hann sagði í gær að í ljós hefði komið að raunverulegur eigandi hluta þess hlutafjár sem Fjárfar var skráð fyrir hefði verið Ingibjörg Pálmadóttir, sambýliskona Jóns Ásgeirs, og talsverð vinna hefði farið í að aðskilja þau bréf frá raunverulegum eignum Fjárfars.
Fram kom í máli Helga að öll hans samskipti vegna Fjárfars hefðu verið við Kristínu Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Gaums, fjölskyldufyrirtækis Jóns Ásgeirs.Hún hefði sagt sér að upplýsingar hennar væru komnar frá Jóni Ásgeiri, sem hefði einnig tekið ákvarðanir fyrir félagið. Helgi sagði að hann hefði ekki vitað hverjir voru hluthafar í upphafi, en það hefði komið í ljós síðar.
Í ársreikningi Fjárfars fyrir árið 1999 kemur fram að í árslok 1999 hafi eigandi yfir 90% hlutafjár í Fjárfari verið Helga Gísladóttir, sem átti 10-11 verslanakeðjuna til ársins 1999 ásamt eiginmanni sínum. Helgi sagðist hafa fengið staðfestingu Helgu um það.
Helga og Eiríkur komu einnig fyrir dóminn í gær. Helga sagðist ekki skilja hvers vegna hún hefði verið sögð eiga yfir 90% hlut í Fjárfari, hún hafi aldrei átt hlut í félaginu. Eiríkur sagði þó að í árslok 2000 hefðu þau gert Jóni Ásgeiri þann greiða að leyfa honum að skrá þau sem eigendur Fjárfars í um það bil þrjár vikur, en á máli hans mátti skilja að það hafi verið sýndargjörningur.