Enski boltinn

Foster fær ekki að spila gegn Man. Utd.

Ben Foster hefur staðið sig frábærlega fyrir Watford á þessu tímabili.
Ben Foster hefur staðið sig frábærlega fyrir Watford á þessu tímabili. MYND/Getty

Markvörðurinn Ben Foster mun ekki leika með Watford gegn Manchester United, fari svo að liðin mætist í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar. Ef Man. Utd. sigrar Middlesbrough í síðari viðureign liðanna í 8-liða úrslitum keppninnar mætir það Watford í undanúrslitum. Foster er í láni hjá Watford frá Man. Utd og má ekki spila gegn liðinu, sama í hvaða keppni um ræðir.

Foster átti stórleik í leik Watford og Plymouth í 8-liða úrslitunum í gær og sýndi oft stórbrotna markvörslu. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikill missir það yrði fyrir Watford ef einn þeirra besti leikmaður á tímabilinu, sem Foster hefur vissulega verið, missir af leik liðsins í undanúrslitum bikarsins.

Mark Ashton, stjórnarformaður Watford, staðfesti þetta við fjölmiðla í dag. "Lánssamningur Watford og Man. Utd. kveður á um að Foster megi ekki spila gegn Man. Utd.," sagði hann. Foster verður því í einkennilegri stöðu þann 14. eða 15. apríl, þegar liðin munu eigast við ef Man. Utd. leggur Middlesbrough af velli. Þá mun hann líklega hvetja lánsliðið sitt til dáða gegn sínu aðalliði til þess að geta upplifað að taka þátt í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×