Fótbolti

Neuville ætlar að berjast til síðasta manns með Gladbach

Oliver Neuville er tilbúinn að leika með Gladbach í 2. deildinni
Oliver Neuville er tilbúinn að leika með Gladbach í 2. deildinni

Þýski landsliðsmaðurinn Oliver Neuville hjá úrvalsdeildarfélaginu Gladbach gagnrýnir nokkra af félögum sínum í liðinu harðlega og segir þá kæra sig kollótta um það hvort liðið haldi sæti sínu í deildinni í vetur eða ekki. Fátt annað en fall blasir við þessu fornfræga liði sem hefur verið á tómu basli síðasta áratug.

"Ég get ekki beðið eftir því að ákveðnir menn fari frá félaginu og undanfarið hefur ég fengið það sterklega á tilfinninguna að mörgum þeirra sé alveg sama hvort Borussia heldur sæti sínu í deildinni eða ekki. Nú eru erfiðir tímar hjá félaginu og hver og einn einasti leikmaður liðsins verður að horfa inn á við og berjast. Það er ekki sanngjarnt gagnvart stuðningsmönnum okkar ef einvherjir menn leggja sig ekki fram.

Annars er mér alveg sama þó nokkrir þeirra séu búnir að gefast upp - ég mun berjast fyrir liðið til síðasta manns hvað sem gerist," sagði hinn 33 ára gamli Neuville sem hefur skorað 90 mörk í efstu deild á ferlinum og skrifaði fyrir nokkrum dögum undir nýjan eins árs samning við félagið. Hann mun spila með Gladbach á næstu leiktíð óháð því hvort liðið fellur um deild eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×