Tottenham tryggði sér í kvöld sæti í 32-úrslitum UEFA-bikarkeppninnar. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Anderlecht á útivelli.
Bart Goor kom Anderlecht yfir á 68. mínútu en Dimitar Berbatov jafnaði metin úr umdeildri vítaspyrnu aðeins þremur mínútum síðar.
Paul Robinson átti góðan leik í marki Tottenham og forðaði liðinu frá tapi.
Gavin McCann skoraði sigurmark Bolton í Belgrad á 45. mínútu. Liðið er nú búið að leika sína leiki í riðlakeppninni og er á toppi riðilsins með sex stig.
Aris og Bayern München koma næst með fimm stig en mætast í lokaumferðinni. Braga frá Portúgal er í fjórða sæti með þrjú stig en Rauða stjarnan á botninum með ekker stig.
Líkurnar eru því góðar á því að Bolton komist áfram í næstu umferð keppninnar.
Ólafur Ingi Skúlason lék fyrstu 85 mínúturnar þegar Helsingborg tapaði fyrir Bordeaux á útivelli, 2-1. Henrik Larsson skoraði mark Svíanna.
Bæði lið eru komin áfram í næstu umferð og Bordeaux tryggði sér toppsæti riðilsins með sigrinum í kvöld.
Panionios og Galatasaray berjast um þriðja sæti riðilsins. Panionios vann í kvöld 1-0 sigur á Austria Vín á útivelli en síðarnefnda liðið er án stiga á botni riðilsins.
Að síðustu unnu Leverkusen og Spartak Moskva 1-0 sigra í kvöld, á Spörtu Prag og Zürich. Spartak er á toppi riðilsins með sjö stig, Zürich og Leverkusen eru með sex. Þessi þrjú lið eru komin áfram upp úr riðlinum en óljóst er hver lokastaða riðilsins verður.