Fótbolti

Inter ætlar að losa sig við Adriano

Adriano hefur verið í ruglinu síðustu mánuði.
Adriano hefur verið í ruglinu síðustu mánuði.

Brasilíski sóknarmaðurinn Adriano verður að öllum líkindum seldur frá Inter Milan í sumar og er talið að forráðamenn ítalska félagsins séu að undirbúa risatilboð í Cristiano Ronaldo hjá Man. Utd, þar sem Adriano mun verða hluti að kaupverðinu.

Adriano virtist vera að koma til um jólin þegar hann skoraði sitt fyrsta mark í níu mánuði, en hann hefur þurft að glíma við mikil vandamál í einkalífinu sem bitnað hafa á frammistöðu hans. Á Ítalíu er því haldið fram að Adriano hafi stundað næturlífið af krafti síðustu vikur og að forráðamenn Inter séu búnir að fá sig endanlega fullsadda af framkomu Brasilíumannsins.

Hann var ekki valinn í hópinn gegn Valencia í Meistaradeildinni á miðvikudag en þjálfarinn Roberto Mancini hefur látið hafa eftir sér að ástæða þess var að Adriano var ekki 100% heill. “Hann var í engu ástandi til að spila heilan leik,” sagði Mancini.

Ítalska blaðið Corriere dello Sport heldur því fram að forráðamenn Inter ætli að freista þess að bæta Adriano við 35 milljón punda tilboð félagsins í Cristiano Ronaldo í sumar. Telja þeir að þar með sé tilboðið orðið nægilega gott að Man. Utd. geti hreinlega ekki hafnað því. Ef svo ólíklega vildi til er Inter sagt ætla að snúa sér að Lionel Messi hjá Barcelona með sambærilegt kauptilboð í huga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×