Enski boltinn

Verður Drogba í vörninni?

Didier Drogba spilaði sem hægri bakvörður framan af sínum ferli í neðri deildunum í Frakklandi.
Didier Drogba spilaði sem hægri bakvörður framan af sínum ferli í neðri deildunum í Frakklandi. MYND/Getty

Fari svo að annaðhvort Richardo Carvalho eða Michael Essien forfallist fyrir úrslitaleik Chelsea og Arsenal í deildabikarnum á morgun mun sóknarmaðurinn Didier Drogba vera færður í öftustu varnarlínu þeirra bláklæddu. Þetta segir Jose Mourinho, stjóri Chelsea, og bætir við að hann eigi ekki annara kosta völ.

Staðfest hefur verið að John Terry geti ekki leikið með Chelsea í leiknum, en það þýðir að Carvalho er eini heili miðvörðurinn í leikmannahóp liðsins. Essien hefur verið að leysa hlutverk miðvarðar í síðustu leikjum liðsins og staðið sig með prýði en Mourinho er meðvitaður um að ekkert megi útaf bregða til að illa fari.

“Nú þegar Terry er meiddur líka er enginn eftir. Essien leysir hann af í úrslitaleiknum en ef það væri enginn Essien þá værum við í vandræðum. Einhverjir kynnu að halda að Michael Ballack gæti komið inn. Nei, hann er of hægur. Næsti maður í vörnina er Drogba,” segir Mourinho.

Ef marka má síðustu leiki Chelsea virðist sem að Andriy Shevchenko sé loksins að ná sér á strik og því gæti orðið minni þörf fyrir Drogba í sóknarleik Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×