Fótbolti

Eiður Smári segir Barcelona verða að rífa sig upp

Eiður Smári hefur verið duglegur að tjá sig í fjölmiðlum síðustu daga.
Eiður Smári hefur verið duglegur að tjá sig í fjölmiðlum síðustu daga. MYND/Getty

Eiður Smári Guðjohnsen segir að leikmenn Barcelona megi ekki hengja haus þrátt fyrir að vera fallnir úr leik í Meistaradeild Evrópu og sér hann stórleikinn gegn Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld sem kjörið tækifæri til að rífa menn upp. Eiður Smári er í hópnum hjá Barcelona fyrir leikinn í kvöld, en hann verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn kl. 21.

"Framundan er stærsti leikur tímabilsins. Við megum ekki hengja haus of lengi þrátt fyrir vonbrigðin gegn Liverpool," ítrekaði Eiður Smári í samtali við Sky Sports. Barca tapaði í toppslagnum gegn Sevilla um síðustu helgi og féll síðan úr keppni í Meistaradeildinni um miðja síðustu viku þrátt fyrir sigur gegn Liverpool á Anfield, þar sem Eiður Smári skoraði einmitt sigurmarkið.

"Síðustu leikir hafa ekki verið góðir en ástandið er enginn heimsendir fyrir okkur. Það er ennþá mikið hungur til staðar í þessu liði. Ef við verðum hungraðir og einbeittir þá þrjá mánuði sem eftir eru af tímabilinu er ég sannfærður um að Barcelona spilar í Meistaradeildinni á næstu leiktíð," sagði Eiður, en Barcelona er í öðru sæti spænsku deildarinnar.

Eiður tjáði sig einnig um sitt persónulega gengi, en hann hefur mátt þola að verma mikið varamannabekkinn á þessu ári. "Það koma alltaf upp áskoranir í fótboltanum og í þessu tilviki hef ég þurft að taka sjálfan mig í gegn og leggja enn harðar að mér til að fá fleiri tækifæri," sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×