Martin Jol viðurkenndi að hræðileg byrjun hans manna í Tottenham hefði gert út um vonir þeirra á áframhaldandi þáttöku í Evrópukeppni félagsliða í kvöld. Tottenham lenti undir 2-0 eftir sjö mínútur og eftir það var róðurinn liðinu skiljanlega þungur.
"Þeir gripu okkur í bólinu strax í byrjun. Þeir eru með frábært lið sem var að mínu mati lið ársins á síðustu leiktíð, en við hefðum óneitanlega átt mikið betri möguleika ef við hefðum ekki gefið þeim mörk á borð við það fyrsta," sagði Jol um klaufalegt sjálfsmark Steed Malbranque eftir aðeins tveggja mínútna leik.
"Ég sagði strákunum að ég vildi að við færum inn á völlinn með reisn og þeir gerðu það. Við unnum síðari hálfleikinn 2-0 og hefðum átt að skora þriðja markið. Við féllum hinsvegar úr keppni með sæmd," sagði Jol.
Miðjumaðurinn Jermaine Jenas tók í sama streng. "Við skutum okkur í fótinn í fyrri hálfleik og áttum ekki mikla möguleika eftir að við lentum undir 2-0. Við sýndum hinsvegar skapfestu í þeim síðari og þar sýndum við úr hverju við erum gerðir - og hvað við ætluðum okkur að gera í leiknum," sagði Jenas. "Strákarnir hafa notið þess að spila í þessari keppni og nú er bara að sjá til þess að við verðum aftur í henni á næstu leiktíð."