Hlutabréf á mörkuðum í Bandaríkjunum lækkuðu í dag eftir að hlutabréfavísitölur náðu miklum hæðum í lok síðustu viku. Dow Jones fór hæst í 12.984 stig í dag en tókst ekki að rjúfa 13 þúsund stiga múrinn.
Vísitalan endaði í 12.923 stigum og lækkaði því um 0,3 prósent frá því á föstudag. Mátti rekja það meðal annars til lækkunar á hlutabréfum í bílaframleiðandanum General Motors en varaformaður stjórnar félagsins sagði að vandræði á skuldabréfamarkaði í Bandaríkjunum myndu hafa áhrif á bílasölu í þessum mánuði.
Standard & Poor´s 500 vísitalan hafði einnig lækkað þegar mörkuðum var lokað í dag, um 0,2 prósent, en á föstudag hafði vísitalan ekki verið hærri í sex og hálft ár. Svipaða sögu var að segja af Nasdaq, hún lækkaði um 0,1 prósent í dag eftir að hafa náð sex ára hámarki á föstudag.