Erlent

Fjöldi ábendinga vegna Madeleine

MYND/AP
Lögreglan í Portúgal segist hafa fengið mikinn fjölda ábendinga í máli Madeleine McCann eftir að ítarlegri lýsing var gefin af manni sem grunaður er um að hafa numið hana á brott. 24 dagar eru nú liðnir síðan hinni fjögurra ára gömlu telpu var rænt úr rúmi sínu á hóteli á Algarve.

Foreldrar stúlkunnar hafa ítrekað biðlað til lögreglunnar um að láta almenningi í té ítarlegri upplýsingar um mann sem grunaður en um verknaðinn en lögregla hefur hingað til ekki viljað veita þær, fyrr en nú.

Breskir fjölmiðlar rekja sinnaskipti lögreglunnar í málinu til þess að faðir Madeleine fór á fund Gordons Brown, fjármálaráðherra í Bretlandi í nýliðinni viku. Nokkur hundruð símtala hafa borist lögreglunni yfir helgina og segja talsmenn hennar að flest snúi þau að þessum nýju uppýsingum.

Nýju upplýsingarnar í málinu eru þær að vinkona McCann hjónanna telur sig hafa séð hvítan mann, 35 til 40 ára nálægt íbúð McCann fjölskyldunnar um klukkan hálftíu kvöldið sem Madeleine hvarf. Vinkonunni sýndist maðurinn halda á barni, en hún mun aðeins hafa séð aftan á hann og hún vissi ekki í hvaða átt hann fór.

Vefsíða tileinkuð Madeleine litlu hefur nú verið heimsótt 128 milljón sinnum frá því hún var sett upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×