Einar Gauti Steingrímsson, verjandi Róberts Árna Hreiðarsson sem í dag var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, var harðorður í garð dómara Héraðsdóms Reykjavíkur eftir að dómur féll í dag.
"Ég tel sakfellingarnar tilefnislausar og ekki í samræmi við gögn málsins. Sakfellingarnar eru í ósamræmi við dómafordæmi í öðrum málum. Héraðsdómarar gengu allt allt of langt. Þessi dómur er þess eðlis að nánast útilokað að honum verði unað.
Steinunn Guðbjartsdóttir hæstaréttarlögmaður var réttargæslumaður einnar stúlkunnar. Hún ræddi við blaðamenn í héraðsdómi eftir að dómurinn yfir Róberti Árna var fallinn
"Ég vonaðist eftir þyngri refsingu og ég vonaðist eftir hærri miskabótum," sagði Steinunn. "Þetta eru alvarlegt brot sem höfðu mikil áhrif á stelpurnar. Svo er ég á þeirri skoðun að miskabætur á Íslandi eru almennt of lágar."