Innlent

Dagur segir fráleitt að selja REI

MYND/Valgarður

„Sú þrautalending borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að ætla að selja hlut Orkuveitunnar í Reykjavik Invest er fráleit. Hún felur í sér að borgarbúar og eigendur Orkuveitunnar verði af þeirri margföldun í verðgildi fyrirtækisins sem spáð hefur verið á næstu arum," segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borginni.

„Upphæðin sem kæmi í hlut kaupenda gæti numið allt að 50 milljörðum króna. Því miður væri þetta þó allt of kunnuglegt. Þjóðin hefur horft upp á bankana sem seldir voru á 12 milljarða 50 - 100 faldast í verði," segir einnig í yfirlýsingu Dags.

Hann segir að salan á REI þýði þó einnig að málefni Hitaveitu Suðurnesja séu í algjöru uppnámi þar sem REI á 48% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. „Gangi þetta eftir verður einkavæðing auðlindanna suður með sjó því orðin að veruleika án þess að það hafi nokkurs staðar verið rætt eða ákveðið. Standa þarf vörð um þá augljósu almannahagsmuni að auðlindir verði í almenningseigu."

Að sögn Dag ser kjarni málsins sá að almannahagsmunir séu „augljóslega víðsfjarri þegar reynt er að plástra yfir hinar djúpstæðu innanflokkserjur Sjálfstæðisflokksins. Sú spurning hlýtur að vera áleitin hvaða ábyrgð borgarstjóri ætlar að axla nú þegar hægri hönd hans og helsti ráðgjafi, Haukur Leósson, hefur verið látinn taka pokann sinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×