Innlent

Gömul skip rifin og flutt burt

Þetta gamla stálskip er eitt þeirra skipa sem verður rifið.
Þetta gamla stálskip er eitt þeirra skipa sem verður rifið. MYND/óskar p. friðriksson

Bæjaryfirvöld og fyrirtæki í Vestmannaeyjum standa að hreinsunarátaki þessa dagana. Unnið er að því að fjarlægja brotamálma af Heimaey og nokkur gömul skip eru þar á meðal. Þau hafa legið í niðurníðslu í höfninni í tíu til tólf ár sum hver og lítil prýði verið af.

Skipin eru tekin á land þar sem Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er að útbúa reit fyrir hráefnis- og olíutanka. Þar stóð áður Sælahúsið, eða Sælaslippur, sem var rifið að hluta skömmu fyrir áramót.

Grafskipið Vestmannaey, sem smíðað var í Danmörku árið 1935 og hefur séð um að dýpka höfnina í Vestmannaeyjum þar til því var lagt fyrir tveimur árum, var tekið upp fyrir nokkru og á mánudag var svo báturinn Frár VE 78 tekinn þar á land einnig. Síðar verður báturinn Æskan VE 222 og tveir prammar, sem nýttir voru undir sand þegar dæluskipið Vestmannaey var að störfum, teknir á land á sama stað til niðurrifs. Fyrirtækið Fura endurvinnsla, annast verkið áður en skip flytur brotajárnið burt til endurvinnslu.

Frosti Gíslason, framkvæmdastjóri framkvæmda- og skipulagssviðs Vestmannaeyjabæjar, segir að átakið nái til hafnarsvæðisins og almennt á Heimaey allri. „Það eru fyrirtæki víðs vegar í bænum sem nota tækifærið og hreinsa til á sínum lóðum. Við leggjum áherslu á brotamálma núna en annað átak verður svo í vor. Það styttist í að Heimaey skarti sínu fegursta á ný.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×