Erlent

Mikið mannfall í árás í Karbala í morgun

Lögregla í hinni helgu borg Karbala hefur lýst yfir útgöngubanni og lokað öllum leiðum inn og út úr borginni eftir að hátt í fimmtíu manns létust og yfir 60 særðust í sjálfsmorðsárás í morgun. Árásarmaðurinn sprengdi sprengjuna við fjölfarna strætisvagnastöð nærri bænahúsi sjía í borginni þar sem barnabarn Múhameðs spámanns er sagt grafið.

Segir á vef breska ríkisútvarpsins að fjölmargar konur og börn hafi verið meðal hinna látnu og særðu. Írakskar sjónvarpsstöðvar sýndu myndir af því þegar fórnarlömbin voru flutt af vettvangi og var mikil ringulreið á staðnum. Þurfti lögregla að skjóta af byssum sínum upp í loftið til þess að greiða fyrir því að sjúkrabílar og björgunarfólk kæmust að staðnum.

Í kjölfarið safnaðist fólk saman framan við skrifstofu ríkisstjórans í Karbala og grýttu hana. Kröfðust þeir afsagnar ríkisstjórans þar sem hann bæri ábyrgð á því hversu slök öryggisgæskla væri í borginni.

Þá létust átta manns í Bagdad þegar sprengja sprakk á einni af mikilvægustum brúm borgarinn í suðurhluta hennar í morgun. Brúin liggur yfir ána Tígris. Þar sprengdi maður pallbíl sinn upp en svo virðist sem brúin hafi ekki skemmst.

Þetta er önnur spreningin sem verður á stuttum tíma á brú í borginni en á fimmtudag sprengdu uppreisnarmenn upp Sarafiya-brúna í norðurhluta Bagdad sem einnig er mikilvæg samgönguæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×