Enski boltinn

Chelsea á eftir van der Vaart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael van der Vaart, leikmaður Hamburg í Þýskalandi.
Rafael van der Vaart, leikmaður Hamburg í Þýskalandi. Nordic Photos / Bongarts

Avram Grant mun hafa fylgst með Rafael van der Vaart í landsleik Hollands og Rúmeníu um helgina.

Bild segir frá því í dag að Chelsea hafi áhuga á að klófesta van der Vaart í janúar næstkomandi. Frank Arnesen, yfirmaður íþróttamála hjá Chelsea, mun þegar hafa hitt Sören Lerby, landa sinn og umboðsmann Hollendingsins marksækna.

Jörn Wolf, talsmaður Hamburg sem van der Vaart leikur með, segir að ekkert tilboð hafi borist í leikmanninn frá Chelsea.

Í sumar hafnaði Hamburg tilboði Valencia í leikmanninn upp á 22 milljónir evra. Sjálfur hefði van der Vaart verið tilbúinn að fara til Spánar en afstaða félagsins var að hann væri ekki til sölu.

Van der Vaart hefur síðan sagt að hann hugsi ekki lengur um að fara frá félaginu.

„Hamburg er það eina sem skiptir mig máli þessa stundina. Það eru erfiðir leikir framundan með Hamburg og vil ég fá að einbeita mér að þeim."

Van der Vaart er samningsbundinn Hamburg til 2010 en má fara frá félaginu árið 2009 ef tilboð upp á minnst 1,5 milljón evra berst í hann.

Hann hefur skorað í síðustu sjö leikjum Hamburg í röð í þýsku úrvalsdeildinni en liðið situr sem stendur í fjórða sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×