Viðskipti erlent

Pundið að nálgast evruna

Breska sterlingspundið hefur aldrei verið lægra gagnvart evrunni en slæmar efnahagshorfur á Englandi hafa að undanförnu sett aukinn þrýsting á gjaldmiðilinn. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, en eitt pund er nú á við 1,029 evrur og stefnir í að gjalmiðlarnir verði jafnverðmiklir á næstu dögum haldi þróunin áfram.

Í endaðan október fengust 1,287 evrur fyrir eitt pund en síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina. Fyrir ári síðan dugði eitt pund fyrir einni og hálfri evru og á hátindi ferils síns árið 2000 var pundið 1,7 evra virði.

Að sögn BBC eru tveir undirliggjandi þættir sem eiga sök á því að pundið veikist með degi hverjum. Í fyrsta lagi eru stýrivextir lægri í Bretlandi og því eru fjárfestar heitari fyrir evrunni en pundinu. Sérfræðingar búast við því að kreppan verði dýpri í Bretlandi heldur en almennt á evrusvæðinu sem gæti leitt af sér að Englandsbanki verði að lækka stýrivextina enn meira en í dag eru þeir tvö prósent. Í Evrópu eru stýrivextirnir hins vegar tvö og hálft prósent og hefur Seðlabanki Evrópu gefið það til kynna að vaxtahækkun sé ólíkleg á næsta ári.

Í öðru lagi hefur verslun yfir jólahátíðina verið með minnsta móti í Bretlandi þetta árið sem boðar ekki gott fyrir gjaldmiðil drottningar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×