Lífið

Reynt að ræna Ósk Norðfjörð og börnum hennar á Spáni

Ósk Norðfjörð. MYND/Arnold.
Ósk Norðfjörð. MYND/Arnold.

„Ég var stödd í fríi á Tenerife og var úti að labba seinnipartinn með strákana mína og áttaði mig á því að maður um fimmtugt elti okkur," útskýrir Ósk Norðfjörð sem upplifði óhuggulega reynslu í sumarfríinu á Spáni í síðustu viku þar sem hún var stödd ásamt sonum sínum tveimur sem eru 8 og 10 ára gamlir.

„Mig grunaði að hann væri vísvitandi að elta okkur og snéri þess vegna við á hótelið. Þegar ég kom aftur út beið hann ennþá fyrir utan eftir okkur."

 

Ræninginn vel upplýstur

„Ég heyrði að maðurinn var að tala í símann þar sem hann lýsti mér og börnunum fyrir einhverjum. Maðurinn, sem var breskur, sagði að ég væri ljóshærð og íslensk og bað einhvern koma og ná í okkur. Ég heyrði hvað hann sagði því hann var nálægt okkur en ég hugsaði með mér að ég hlyti að vera ímyndunarveik en mér fannst þetta mjög grunsamlegt og lét strax vita á hótelinu að ókunnugur maður væri að elta okkur."

„Lögreglan kom, tók vegabréf mannsins og yfirheyrði hann. Hann afsakaði sig með því að segja að dóttir sín væri týnd og að hann hafi verið að leita að henni og því elt mig fram og til baka. Það tók tíma fyrir lögregluna að finna út úr þessu en hún tekur víst hart á svona málum."

„Fimm vopnaðir lögreglumenn komu og sóttu manninn, sem gaf upp rangt nafn og dóttir hans var ekki með honum eins og hann sagði. Ég veit ekki fyrir víst hvað fyrir honum lá. Það er glæpur á Spáni að elta fólk og er tekið mjög alvarlega," segir Ósk.

Ótti einkenndi frí fjölskyldunnar

„Maðurinn neitaði ekki að hafa verið að elta mig og börnin mín en hann vildi ekkert segja hvað honum stóð til. Síðustu þrír dagar frísins fóru í það að vera óttaslegin þrátt fyrir að lögreglan skráði allt niður og yfirheyrði manninn."

„Við Íslendingar erum saklausir og trúum engu slæmu upp á neinn og þess vegna vil ég bara vara fólk við því þetta er alvarlegt mál. Mér finnst í lagi að segja frá þessari hræðilegu reynslu. Ég svaf ekkert það sem eftir var og við settum stóla og sófasett fyrir svalahurðina og höfðum baseball kylfu hjá rúminu það sem eftir var frísins."

„Nei ég er ekki búin að jafna mig. Þegar ég lenti fór ég að hágráta því ég fékk spennufall þegar við vorum loksins lent á Íslandi. Ég get ekki hugsað þetta til enda og vil bara benda fólki á að vera vart um sig á ferðalögum erlendis," segir Ósk en hótelið sem hún gisti á ásamt sonum sínum heitir Parque Cristobal.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.